144. löggjafarþing — 35. fundur,  19. nóv. 2014.

Seðlabanki Íslands.

390. mál
[17:15]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég sé það heldur ekki sem vanda fyrsta kastið en ef sagan endurtekur sig og ekkert breytist, og menn beita ekki öðrum ráðum en áður, er það mjög líklegt. Hv. þingmaður segir að hann telji ólíklegt að erlent fé leiti til Íslands. Ég tel það ekkert ólíklegt, að vísu ekki fyrsta kastið, ég er sammála því, en hví skyldi það ekki gerast?

Staðan er öðruvísi núna en til dæmis þegar Einar Oddur Kristjánsson fór með fyrstu varnaðarorðin yfir þennan stól á sínum tíma og enginn þingmaður tók eiginlega undir þau nema kannski hv. þm. Pétur H. Blöndal. Það voru ekki mjög margir sem skildu það þá. Hann undirstrikaði að við værum komin í þá stöðu að þarfir erlendra fjárfesta væru farnar að ráða stjórnun vaxta á Íslandi fremur en þarfir atvinnulífsins.

Seðlabankinn sagði í síðustu skýrslu sinni um fjármálalegan stöðugleika að afstaða milli Íslands og umheimsins yrði hugsanlega á næstu árum allt öðruvísi en áður var, meira hvetjandi til þess að hingað sogaðist fjármagn, vegna þess að hér hefur í fjögur ár verið hagvöxtur, og vegna þess að vextir hér eru tiltölulega háir á alþjóðlegan mælikvarða. Erlendis fara vextir niður, í sumum nágrannalöndum eru stýrivextir komnir í 0. Þar er spáð vondri hagþróun. Er það ekki eðli fjármagnsins, ekki síst þessara gríðarlega stóru fjárfestingarsjóða sem eru hér utan við efnahagslögsöguna, að leita hófanna alls staðar þar sem hægt er að fá þokkalega ávöxtun fyrir einhvern hlunk af fjármagni?

Auðvitað gerist þetta aftur nema við höfum einhverja skýra peningamálastefnu. Ég er ekki viss um að það sé nóg sem hv. þingmaður sagði. Hann sagði efnislega að ríkisstjórnin ætti að hvetja menn til að spara og auðvitað er það mikilvægt en ég er ekki viss um að það eitt og sér leysi þetta vandamál sem, ef allt gengur upp hjá ríkisstjórninni, er líklegt að við stöndum aftur frammi fyrir sem sameiginlegum vanda — en ekki fyrsta kastið.