144. löggjafarþing — 35. fundur,  19. nóv. 2014.

Seðlabanki Íslands.

390. mál
[17:34]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. 2. þm. Reykv. n. sérstaklega fyrir þessa ræðu. Það er alltaf mjög áhugavert að hlusta á viðhorf hans gagnvart peningakerfinu og Seðlabankanum og öllu sem því við kemur.

Hv. þingmaður er stuðningsmaður þess að endurbæta bankakerfið, ef ég skil rétt. Ég hef alltaf litið á það sem ein af reginmistökum Íslendinga fyrir hrun að vera ekki viðbúnir, að gera ráð fyrir því að hlutirnir yrðu bara í lagi. Ég hef smááhyggjur af því að eiginfjárhlutfall Seðlabankans sé lækkað af þeim ástæðum. Ég er þeirrar skoðunar eins og er að það eiginfjárhlutfall eigi að vera eins hátt og við komumst upp með, meira eða minna. Hverjum og einum er frjálst að reyna að sannfæra mig um annað í þeim efnum.

Ég velti því fyrir mér hvort hv. þingmaður sé sammála mér um að þetta eiginfjárhlutfall þurfi að vera hátt áður en merki sjást um óveður í fjármálakerfinu.