144. löggjafarþing — 36. fundur,  20. nóv. 2014.

fjarvinnsluverkefni fyrir skjalasöfn.

[11:07]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir innlegg hans. Nú tilkynnir forseti reglulega að ráðuneytin séu að drukkna í skriflegum fyrirspurnum og þess vegna reynir maður að nýta sér þennan kost hér og líka vegna þess að tillögur fyrir 2. umr. fjárlaga eru að detta í hús.

Þetta eru oft ódýr verkefni eins og ég sagði og það eru gjarnan konur sem vinna þau. Við tölum um kynjaða hagstjórn en ég veit ekki hvort búið er að lesa fjárlagafrumvarpið með kynjagleraugum og hvernig þessi verkefni koma niður. Ég vil nefna að meðal verkefna er skráning í Sarp sem hefur reyndar verið á vegum Þjóðminjasafnsins, en skjalasöfnin hafa líka verið með svona skráningarverkefni eins og hæstv. ráðherra þekkir. Það er bagalegt ef það þarf að treysta á gjafafé (Forseti hringir.) og það er líka bagalegt ef þessi störf eru bara til einhverra mánaða í senn eða eins árs og fólk hefur ekki atvinnutryggingu.