144. löggjafarþing — 36. fundur,  20. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[12:25]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Hún nefndi sérgreinalækna og vandamál tengd þeim. Nú er það þannig að á síðasta kjörtímabili gerði ríkisstjórnin ekki samninga við sérgreinalækna þannig að sjúklingar þurftu að borga það sem umfram var, það sem læknarnir settu upp sem reikning til sjúklinganna. Sjúklingar voru að borga yfir 40%, ef ég þekki málið rétt.

Síðan var gerður samningur og hann er óvænt útgjöld fyrir ríkissjóð og þá minnkar hlutur sjúklinga. Er þetta ekki jákvætt? Ég spyr: Er ekki jákvætt að ríkisstjórnin hafi gert samninga við sérgreinalækna sem fyrri ríkisstjórn gerði ekki?

Svo varðandi barnabæturnar. Menn gerðu áætlun um ákveðna hækkun launa. Síðan gerist það að launin hækka meira. Hvað vill hv. þingmaður gera? Vill hann lækka launin núna með lagaboði? Er ekki jákvætt að barnabætur skuli hafa lækkað vegna þess að tekjur urðu meiri en menn höfðu búist við?