144. löggjafarþing — 36. fundur,  20. nóv. 2014.

dagur helgaður fræðslu um mannréttindi barna.

397. mál
[15:13]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég kem í ræðustól til að fagna þessari tillögu sem fulltrúar allra flokka sameinast um að flytja, tillögu til þingsályktunar um dag helgaðan fræðslu um mannréttindi barna, eins og hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir talaði um, a.m.k. þennan dag. Við vitum að margir dagar eru það en þessi dagur ekki síst. Ég fagna því alveg sérstaklega að um þetta sé þverpólitísk sátt og er ákaflega stoltur af því að hafa sem starfandi forseti getað beitt mér fyrir því að þessi tillaga er eitt af þremur dagskrármálum þessa fundar á þessum merkilega degi. Mér fannst það mjög tilhlýðilegt. Ég veit líka að ég hef stuðning forseta Alþingis fyrir því, hv. þm. Einars Kristins Guðfinnssonar, og hygg að hann hefði gert það sama ef hann hefði verið hér. Þetta finnst mér mjög táknrænt og þess vegna fagna ég aftur að þessi tillaga skuli vera borin hér fram.

Ég hef svo sem ekki miklu við það að bæta og ætla ekki að lengja umræðuna, virðulegi forseti, um það sem í tillögunni stendur og hvers vegna hún er flutt. Það er allt saman gott og góðra gjalda vert og þarf ekki að bæta við. Í greinargerðinni er í byrjun talað um þennan feril frá 20. nóvember 1989 þegar allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkir samninginn, við Íslendingar undirritum svo 1990, fullgildum hann 1992 en lögfestum ekki fyrr en 2013. Það var gert á síðasta kjörtímabili og við vorum öll ákaflega stolt af því að hafa staðið að því og gert það loksins.

Þessi hópur er til kominn vegna þess að UNICEF bað um tilnefningar frá fulltrúum allra þingflokka í nefnd. Hér hefur því verið lýst að hv. þingmenn voru í afmælishófi í morgun í Laugalækjarskóla og tóku þátt í leik og fleiru, sem gekk ekki upp og stoppaði að mér skilst. Ég fagna því líka að fulltrúar allra flokka hafi mætt á þennan fund á þessum degi og barnasáttmálanum gert svo hátt undir höfði sem raun ber vitni, líka með þessari tillögu hér.

Það er ánægjulegt að þetta mál skuli vera rætt hér og skuli ganga til nefndar, sem er væntanlega allsherjar- og menntamálanefnd. Ég segi fyrir mitt leyti að ég mun beita mér fyrir því í forsætisnefnd og hvet allsherjar- og menntamálanefnd til að vinna málið fljótt og vel, en vandað að sjálfsögðu. Markmið okkar á að vera að samþykkja þessa tillögu eigi síðar en þegar þingi lýkur hér fyrir jól. Mér finnst táknrænt að gera það í framhaldi af þessu sem sýnir að um þetta er væntanlega full samstaða. Þetta er merkileg ályktun sem hér er sett fram um að helga þennan dag fræðslu um mannréttindi barna.

Meira vildi ég ekki segja, virðulegi forseti, en ítreka ánægju mína og þakka þeim þingmönnum sem flytja þetta hér inn fyrir þeirra störf hvað þetta varðar.