144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

afgreiðsla rammaáætlunar úr atvinnuveganefnd.

[11:11]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Það eru 16 virkjunarkostir í nýtingarflokki í rammaáætlun og það er eðli sáttarinnar að margir, eins og ég, sem aðhyllast umhverfisvernd þurftu að kyngja ýmsu í því, að sjá til dæmis virkjunarkosti á Reykjanesskaga í nýtingarflokki. Þetta er einfaldlega mjög djúpt deilumál meðal þjóðarinnar og það þarf að vanda sig í þessum málum. Hér er ríkisstjórnin ekki að því.

Ég hef ekki lesið ævisögu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar. Ef ég les í bókum eitthvað sem mér finnst dæmi um slæm vinnubrögð hugsa ég: Ég ætla ekki að gera svona, ég ætla að gera betur.

Hæstv. ráðherra Bjarni Benediktsson virðist hugsa: Já, svona ætla ég að gera líka. Svona getum við gert [Kliður í þingsal.] líka.

Þetta er alveg ótrúlega djúp gjá í hugsunarhætti, finnst mér, á milli mín og hæstv. ráðherra og undarlegur málflutningur. Svo skal böl bæta. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) Akkúrat, ég held að það sé prentvilla í stjórnarsáttmálanum. Það stendur: Ríkisstjórnin mun leitast við að virkja samtakamátt þjóðarinnar. (Forseti hringir.) Það átti að vera punktur þarna: Ríkisstjórnin mun leitast við að virkja.