144. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2014.

örnefni.

403. mál
[14:23]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Sökum þess að síðar í dag, nánar tiltekið klukkan hálfþrjú, fara fram sérstakar umræður og ég vil ekki tálma för þessa máls til nefndar ætla ég að hlífa þinginu við að halda hér móður allra ræðna um örnefni. Hins vegar er það málaflokkur sem er vel þess virði að halda um langa og djúpa ræðu. Ég hef hrifist af þeim umræðum sem hér hafa farið fram, allra þeirra sem hafa tekið til máls. Ég viðurkenni að í þessu máli er ég svo skoðanalaus að ég hef sveiflast á millum þriggja póla. Ég var algjörlega sammála hæstv. menntamálaráðherra þegar hann flutti sína snjöllu ræðu áðan, en var jafnharðan sleginn til hliðar þegar hv. þm. Svandís Svavarsdóttir flutti sína og að lokum kylliflatur þegar hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir kom hér og vóg að hæstv. ráðherra fyrir íhaldssemi um örnefni.

Það vil ég þó segja að ég er þeirrar skoðunar að ákaflega miklu skipti og hafi sögulegt gildi að varðveita örnefni. Mörg þeirra örnefna sem við höfum í dag teygja sig langt aftur til landnáms og eiga ríka sögu. Því miður er það svo að oft og tíðum tapast sagan á bak við örnefnin, síðan tapast örnefnin líka.

Hæstv. ráðherra sagði að örnefni væru ríkur þáttur í arfleifð okkar á hinu menningarlega sviði. Ég er sammála honum um það. Samhliða er ég þeirrar skoðunar að ekkert sé í jafn stöðugri eyðingu og endursköpun eins og örnefni og sennilega er ekkert sem hefur týnst og gleymst jafn mikið og einmitt þau, en jafnan spretta upp ný. Af því ég ætla að halda stutta ræðu vil ég örstutt mótmæla því sem hv. þm. Svandís Svavarsdóttir sagði áðan að ekki sköpuðust deilur um myndun örnefna. Það lá við að heilt hverfi í Reykjavík, í Hlíðunum þar sem ég er alinn upp, gerði uppreisn á sínum tíma þegar menn tóku Klambratún og skírðu það nafnleysunni Miklatún. Get ég ekki nógsamlega þakkað síðustu borgarstjórn fyrir að hafa breytt því aftur.

Endursköpun örnefna fer fram með margvíslegum hætti. Heiðarhorn verður í daglegu tali Heygarðshorn. Útigönguhöfði verður Útigangshöfði. Svo mætti lengi telja. Endursköpun á sér stöðugt stað.

Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir að ætla að opna skráningartólið hjá Landmælingum fyrir almenningi og gefa honum kost á að skrá inn þar örnefni. Eyðingin er svo virk að örnefni á jörðum sem voru rík í máli allra sem þar bjuggu fyrir 100 árum eru nánast horfin í dag.

Svo vil ég gera ákaflega sterkar athugasemdir við það hjá hæstv. ráðherra að alþjóðavæðingin skapi sérstaka hættu gagnvart örnefnum. Ef hæstv. ráðherra mundi taka sér ferð á hendur t.d. undir Herðubreið og Herðubreiðartögl mundi hann geta séð þar á korti örnefnið Nautagil. Menn halda kannski að það sé frá því að einhverjir landnámsmenn töpuðu nautum sínum ofan í gil. Svo er ekki. Það varð til þegar 1967 kom hér maður að nafni Neil Armstrong til að æfa sig áður en hann fyrstur manna steig skrefið fræga á tunglinu. Hann var með „astrónauta“ með sér, geimfara, og þeir æfðu sig í gili þar um slóðir. Eftir það var það upphaflega kallað Astrónautagil og í munnlegri geymd og vinnslu varð það að Nautagili. Þannig er það skráð á kortum í dag. Þegar ég fór að skyggnast á bak við orðið og velta fyrir mér hvað naut voru að gera svona langt inn á miðhálendinu, kom þessi skýring. Þannig að ég mundi halda því fram að alþjóðavæðingin hafi a.m.k. að þessu leytinu til auðgað íslenskt mál.