144. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2014.

þróunarsamvinna.

[14:56]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Ég er sammála þeim hv. þingmönnum sem hafa tekið það fram í umræðunum að það sé sátt um að þróunaraðstoð Íslendinga sé vel skipulögð, að starfið skili góðum árangri og að störf Þróunarsamvinnustofnunar og annarra sem hafa unnið að þróunaraðstoð á vegum okkar Íslendinga sé í toppklassa ef svo má segja. Ég hef enga trú á öðru en að Þróunarsamvinnustofnun og önnur apparöt okkar Íslendinga muni algjörlega ráða við það að fá meira fjármagn.

Af því að hér hefur verið rætt um að við viljum auka hlutfall af þjóðarframleiðslu og að Íslendingar geri betur í krónum talið en einhvern tímann áður vil ég bara minna okkur á að þó að ástandið hafi einhvern tímann verið einhvern veginn og það sé ekki orðið verra þýðir það ekki að það sé orðið gott. Í þessu samhengi langar mig aðeins til að skoða tölur frá 2011 sem byggja á tölum frá Eurostat þar sem kemur fram að Íslendingar eru hlutfallslega í neðsta sæti af þjóðum OECD. Árið 2011 veittum við þróunaraðstoð fyrir um það bil 0,22% af þjóðarframleiðslu en Norðmenn trónuðu efstir með 0,93%.

Það sem er kannski ógnvænlegra við þessar tölur er að þegar þær eru skoðaðar ofan á mannfjölda viðkomandi ríkja veita Norðmenn 959 dollara á mann á meðan Íslendingar veita 80 dollara á mann og þeir sem eru næstlægstir, Þjóðverjar, 172 dollara á mann. Það þykja mér ekki mjög sæmandi tölur og það er ekki gaman að þurfa að vitna í þær. (Forseti hringir.) Við Íslendingar setjum oft heimsmet í því hvað við erum dugleg að styrkja málefni (Forseti hringir.) innan lands miðað við aðrar þjóðir og ég held að við mættum (Forseti hringir.) aðeins horfa út fyrir landhelgina.