144. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2014.

þróunarsamvinna.

[15:07]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki alveg hversu miklu maður á að eyða af þessum tveimur mínútum í að leiðrétta eða svara hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur sem fór hér mikinn. Ef við skoðum hins vegar síðustu ár, frá 2006, er eitt ár þar sem við vorum með hærri krónutölu til þróunaraðstoðar en er í dag, í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2015. Það var árið 2008. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður viðurkennir hins vegar greinilega ekki og gleymir því að hennar (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) ríkisstjórn, ríkisstjórnin sem þingmaðurinn studdi, skar hér niður þróunarhjálp meira en nokkur annar hefur gert og skammast sín greinilega ekki mikið fyrir það.

Við erum hins vegar sammála um að við þurfum að gera betur. Ég er í því liði með ykkur sem hér hafið talað, við þurfum að gera betur. (Gripið fram í.) Við þurfum að bæta við fjármunum til þróunaraðstoðar. Ætlun okkar er að leggja fram þingsályktunartillögu þegar kemur að nýrri þróunarsamvinnuáætlun og gera ráð fyrir því að það verði aukið í en það verði gert mun hægar en gert var ráð fyrir í þeirri áætlun sem nú er í gildi. Þar liggur meginmunurinn.

Ég get hugsanlega alveg verið sammála ykkur með það sem hér hafið talað, góðir þingmenn, að auðvitað væri óskastaðan sú að geta hækkað þetta bara einn, tveir og þrír upp í 0,7%. En það er ekki þannig og það verður ekki þannig. Við erum með þjóðfélag þar sem búið er að skera mjög mikið niður. Það er búið að skera niður eins og allir vita í grunnstoðum þessa samfélags. Við erum að bæta í núna, þessi ríkisstjórn er að nota hagvöxtinn sem við sjáum og betri hag ríkissjóðs til að auka þar í og við munum vonandi geta gert það líka, en hægar, þegar kemur að þróunaraðstoðinni.

Ég er sammála hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur með það að þróunarmálin eru eitthvað það mikilvægasta sem við höfum í okkar utanríkisstefnu. Við getum orðið svo mikið að liði þar. Þess vegna erum við sífellt með þetta efst á prógrammi okkar (Forseti hringir.) þegar kemur að utanríkisstefnu. En ég er sammála ykkur, við þurfum að gera betur, en ég er ósammála þeim sem segja að við eigum að gera þetta jafn hratt og er í núgildandi áætlun.