144. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:15]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir yfirferðina. Haustið 2008 hrundi efnahagur landsins. Það tókst að snúa því við og hagur ríkissjóðs batnaði jafnt og þétt allt síðasta kjörtímabil. Það tókst að forða ríkissjóði frá gjaldþroti og hagvöxtur hófst að nýju og kaupmáttur óx. Þannig að allar tölur hafa farið í rétta átt. En þegar við vorum í mestum vanda þurftum við að skera niður á öllum sviðum ríkisrekstrarins, líka í heilbrigðiskerfinu. Við hættum að skera niður árið 2012 og fórum að gefa til baka í fjárlögum 2013. Það er mjög eðlileg þróun að við höldum áfram á þeirri braut að bæta heilbrigðiskerfið og ekki veitir af eins og staðan er, bæði þarf að koma til fjármagn í rekstur og eins þarf að byggja nýjar stofnanir.

Virðulegur forseti. Það sem ríkisstjórnin hefur gert síðan hún tók við er að auka mjög greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðiskerfinu. Bara á árinu 2014 er aukning sem lögð er á herðar sjúklinga 611 millj. kr. Það er gert ráð fyrir því samkvæmt fjárlagafrumvarpinu að á árinu 2015 bætist við rúmur milljarður sem á að rukka sjúklinga um vegna komugjalda hjá sérgreinalæknum.

Ég vil spyrja hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur hvort þetta samræmist stefnu ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans og áherslunni á að bæta heilbrigðiskerfið og væntanlega jafnt aðgengi fyrir alla landsmenn.