144. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:43]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mjög erfitt að ræða þessi mál ef hv. þingmaður hefur ekki kynnt sér þau. Það er mjög snúið. Þá ætla ég aðeins að fara yfir vinnuna sem hv. þingmaður kannast ekki við að fyrri ríkisstjórn hafi stútað. Vinnan gengur út á að koma hér á endurgreiðslukerfi þar sem tryggt er að þeir sem þurfa á þjónustunni að halda borgi aldrei umfram ákveðið hámark. (GuðbH: … búin á tveimur árum …) Hv. þm. Guðbjartur Hannesson (Gripið fram í.) er í miklum vandræðum með sjálfan sig, eðlilega, því að hv. þm. Guðbjartur Hannesson er maður með samvisku og hann er með samviskubit yfir þessu. (GuðbH: Þið tókuð við, hv. þingmaður.)

Virðulegi forseti. Fæ ég smá tíma til þess að svara eða viltu hleypa Guðbjarti Hannessyni strax að?

(Forseti (KLM): Forseti vill biðja þingmenn um að veita þeim sem eru í ræðustól tíma til að flytja mál sitt, þeir einir hafa orðið.)

Virðulegi forseti. Staðreyndin er sú að síðasta ríkisstjórn tók þessa vinnu og henti henni í ruslið, annars værum við kannski ekki að tala um þau mál sem hv. þingmaður var að vísa í, (Forseti hringir.) í könnun frá árinu 2012.

Ég ætla ekki að gera athugasemd við fundarstjórnina, en það var tekinn af mér mestur hluti tímans.