144. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:06]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Stefnan sem tekin er í átt til nýfrjálshyggju er í raun sú að hér er verið að hræra í skattstefnu sem fyrst og fremst leggur til ójöfnuð. Það er ekkert launungarmál. Viðbótarframlög eru, eins og ég rakti í máli mínu, góðra gjalda verð en sem betur fer sá meiri hlutinn að sér og jók framlögin, en það var ekki fyrr en mikið var búið að ganga á. Samt sem áður er verið að auka álögur, það liggur alveg fyrir.

Það er viðurkennt og hæstv. heilbrigðisráðherra hefur tekið undir það að það er verið að láta sjúklinga borga meira. Það er verið að setja reglugerð í samband sem gerir það að verkum, þetta er eitt af því sem aðgreinir okkur. Við viljum nýta fjármunina til að draga úr þessu, minnka þetta ójafnvægi, við viljum frekar reyna að greiða meira niður. Við viljum auðvitað meiri opinberan rekstur en sjálfstæðismenn, ég held að það sé alveg ljóst. Sjálfstæðisflokkurinn stendur fyrir því að vilja meiri einkarekstur, við viljum meiri opinberan rekstur.

Ég er búin að svara því, hv. þingmaður, að nýfrjálshyggjan felst meðal annars í því. (GÞÞ: En heilbrigðismálin?) Ég sagði það, ég tók undir það. Það er jákvætt að framlagið er til dæmis aukið til Landspítalans. Ég sagði það líka í ræðu minni og geri ekkert lítið úr því að sem betur fer, með miklum látum, hafðist það í gegn, (GÞÞ: Ekki hjá ykkur.) þið sáuð að ykkur og lögðuð fram aukna fjármuni. Það hefði ekki gerst nema með þeim miklu harmkvælum sem heyrst hafa utan úr samfélaginu því að það stóð aldrei til. Fjárlagafrumvarpið var lagt fram á þann hátt að ekki var gert ráð fyrir norrænu velferðarkerfi sem við mundum flest vilja sjá.