144. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:08]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. 9. þm. Norðausturkjördæmis ræðuna. Mig langar að spyrja aðeins út í Ríkisútvarpið sem hv. þingmaður vék að í ræðu sinni. Eins og þekkt er hefur það tíðkast að innheimta gjald sem er sérstaklega eyrnamerkt eða ætti að vera sérstaklega eyrnamerkt Ríkisútvarpinu og er réttlætt á þeim forsendum. Þetta er í formi svokallaðs nefskatts, sem er eitt mest óþolandi skattform sem ég get ímyndað mér og hef nokkurn tímann kynnst, það tekur ekkert tillit til tekna, tekur ekkert tillit til aðstæðna og er óréttlátt á allan hátt. En burt séð frá því hefur þetta gjald verið 19.400 kr. og nú á að lækka það niður í 17.400, ef ég skil rétt, en stjórnarliðar hampa því að það eigi að renna óskert til Ríkisútvarpsins sem á auðvitað að vera sjálfsagt. Það á ekki að þurfa að taka sérstaklega fram. Að mínu mati ætti það að vera miklu meira hneyksli hvernig ríkissjóður hefur tekið skerf af þessum greiðslum og reyndar öðrum, meira að segja til þjóðkirkjunnar sem er stofnun sem ég er persónulega ekkert sérstaklega hrifinn af.

Þá heyri ég að mikið hafi verið um fjárframlög til Ríkisútvarpsins. Ég heyri annars staðar frá að svo hafi ekki verið síðan 2008. Ég velti fyrir mér hvort þetta hafi komið til tals í fjárlaganefnd og hvort hv. þingmaður geti kannski útskýrt staðreyndir málsins eitthvað fyrir mér og öðrum, hvernig greiðslum til Ríkisútvarpsins hafi verið háttað með hliðsjón af þessu.

Einnig vil ég spyrja hvort reynt sé með því sem boðað er með þessu frumvarpi og breytingartillögum meiri hlutans eða minni hlutans að koma til móts við þær skerðingar á framlagi (Forseti hringir.) til Ríkisútvarpsins sem hafa verið þegar ríkið tekur hluta af þessum tekjum?