144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[12:03]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Mig langar að spyrja hana aðeins út í RÚV, af því að hún nefndi lélegt dreifikerfi og ýmislegt í því sambandi.

Nú sat hún fund eins og ég þar sem forsvarsmenn RÚV komu í heimsókn til fjárlaganefndar. Farið var yfir stöðu Ríkisútvarpsins og hvað þyrfti að gera. Þar var meðal annars rætt um þetta dreifikerfi og uppsafnaðan vanda sem þyrfti að fara í upp á að minnsta kosti 400 milljónir á næstu árum. Einnig kom þar fram að óhagræði væri vegna lélegs tækjabúnaðar og annars og því þarf frekar að bæta í til að lagfæra starfsemina í stað þess að draga úr fjárframlögum.

Nú var ég á fundi í morgun í allsherjar- og menntamálanefnd þar sem öll stjórn RÚV kom ásamt útvarpsstjóra. Þar var í raun neyðarkall á ferð. Þar var þeirri spurningu varpað til okkar þingmanna sem þar sátum: Hvað viljið þið velja burt? Ef þetta gengur eftir, þetta fjárlagafrumvarp óbreytt, með þessum viðbótarframlögum sem meiri hlutinn hefur lagt til, það eru 17.800 kr. gjaldið, þá þýðir það niðurskurð upp á 600–900 millj. kr. Það þýðir gjörbreytt Ríkisútvarp og þá þarf að velja eitthvað burt.

Ég spyr þingmanninn hvað hún telur að mætti missa sig hjá RÚV og hvort hún sé tilbúin til að leggja þar eitthvað af. Ég spyr líka: Telur hún réttu leiðina til að gera mjög drastískar breytingar á Ríkisútvarpinu í gegnum fjárlög, frekar en það sé gert í gegnum mikla umræðu á þingi um Ríkisútvarpið?