144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[14:44]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann sé sammála því sem er að finna í stjórnarsáttmála stjórnarflokkanna og kosningaloforðum beggja flokka fyrir kosningar varðandi forgangsröðun fjármuna á fjárlögum. Það kemur skýrt fram í stjórnarsáttmálanum að leggja eigi skattfé fyrst í þau verkefni sem eru brýn og áríðandi.

Ég spyr að þessu vegna þess að ég átti gott samtal við starfandi landlækni í gær og hann tjáði mér að við stæðum frammi fyrir því að ef það yrði önnur verkfallslota eftir áramót hjá læknum þá sýnist honum við vera komin í spíral niður á við þar sem flótti lækna orsakaði aukið álag á þá lækna sem fyrir væru og heilbrigðisstarfsfólk, sem yki líkurnar á því að það fólk yfirgæfi líka stéttina með auknu álagi og svo koll af kolli. Það er stórhættulegt. Við gætum lent í því og ástandið er jafnvel nú þegar þannig.

Mig langar í því ljósi og í ljósi kosningaloforða Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins að lesa úr stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningar. Þar segir, með leyfi forseta:

„Þar skal haft að leiðarljósi að heilbrigðisstarfsfólkið okkar er hin raunverulegu verðmæti heilbrigðiskerfisins.“

Framsóknarflokkurinn orðar það svo, með leyfi forseta, að hann leggi ríka áherslu á að verðmæti heilbrigðisþjónustunnar felist fyrst og fremst í mannauðnum og því þurfi að bæta starfsumhverfi og kjör heilbrigðisstétta og draga þannig úr brotthvarfi innan stéttarinnar.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann sé ekki sammála þessum kosningaloforðum og þeirri forgangsröðun sem er talað um í stjórnarsáttmálanum, að það eigi að leggja skattfé fyrst í þau verkefni sem eru brýn og áríðandi, og hvort hann upplifi þetta ekki eins og starfandi landlæknir, að það sé brýnt og áríðandi að leysa kjaradeiluna við lækna (Forseti hringir.) svo að við lendum ekki í neikvæðum spíral og að almennt sé fé (Forseti hringir.) forgangsraða á þennan stað.