144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[14:57]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek heils hugar undir með hv. þingmanni. Ég þekki svo sem ekki lagagrunninn eða lagaumhverfið nákvæmlega en það hefur verið rætt víðar, Isavia hefur verið nefnt hér áður, það hefur líka verið rætt um Íbúðalánasjóð þar sem búið er að setja sama umhverfi varðandi stjórnendur þar og er hjá bönkunum. Það er persónuleg ábyrgð á bak við ákvarðanatöku þar til dæmis en samt koma valdboð frá ráðherrum sem segja bara: Annaðhvort gerið þið þetta eða verra hlýst af. Þið verðið að hlýða. Þetta kalla ég frekjustjórnmál, þetta eru vond stjórnmál, þetta er hluti af því sem ég var að tala um í ræðu minni að hefði breyst með þessari ríkisstjórn. Þess vegna kalla ég hana últra-hægristjórn. Þetta er stjórn sem rekur þetta eins og hún eigi það og ekki bara eins og hún eigi það heldur þarf hún að sýna vald sitt. Það er vont þegar menn hafa svo mikla minnimáttarkennd að þeir þurfi að sýna vald sitt með ákvörðunum eins og þessari.

Það er búið að skera niður 100 störf. Það er líka búið að skera niður verktakaþjónustuna í Ríkisútvarpinu. Það er búið að breyta gríðarlega miklu. En það á að stilla mönnum upp og segja: Þið verðið að ná þessum árangri. Ef þið náið honum ekki þá tvöföldum við niðurskurðinn. Haldið þið að þetta sé hægt? (Gripið fram í: Hótanir.) Þetta eru hreinar og klárar hótanir og þær eru óframkvæmanlegar. Auðvitað ætti stjórnin að segja af sér strax og svona bull verður samþykkt ef það fer í gegn. Ég vona þó að svo verði ekki.