144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:11]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Skoðun landsmanna í skoðanakönnun sem Capacent Gallup gerði núna í nóvember var skýr, niðurstöður voru alveg mjög skýrar að — (Gripið fram í: Fyrir hvern?) Fyrir þingflokk Pírata. Niðurstöðurnar voru þannig að landsmenn vildu setja heilbrigðiskerfið í forgang. 77,6% settu það í fyrsta sæti. Ef við tökum fyrstu tvö sætin voru það 91%. Þar á eftir var menntakerfið með 44%. Það er afgerandi afstaða landsmanna að setja heilbrigðiskerfið í forgang.

Ég hef verið að benda þingmönnum á, sér í lagi þingmönnum stjórnarflokkanna, hverju þeir lofuðu í þessu efni fyrir kosningar. Í stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins fyrir síðustu kosningar um heilbrigðismál var sagt að það væri leiðarljós að heilbrigðisstarfsfólkið okkar væri hin raunverulegu verðmæti heilbrigðiskerfisins. Kosningaloforð Framsóknarflokksins fyrir kosningar í heilbrigðismálum var samhljóða og jafnvel afdráttarlausara þar sem fram kemur, með leyfi forseta:

„Framsókn leggur ríka áherslu á að verðmæti heilbrigðisþjónustunnar felst fyrst og fremst í mannauðnum og því þarf að bæta starfsumhverfi og kjör heilbrigðisstétta og draga þannig úr brotthvarfi innan stéttarinnar.“

Í stjórnarsáttmálanum segir svo að leggja skuli skattfé fyrst í þau verkefni sem eru brýn og áríðandi og af þessum brýnu og áríðandi verkefnum er fyrst nefnd örugg heilbrigðisþjónusta. Ég spyr þingmanninn hvort hann sé sammála þessu. Hlýtur það þá ekki að vera forgangsatriði ríkisstjórnarinnar, eins og landsmanna allra, að leggja skattfé fyrst í það brýna og áríðandi verkefni að koma í veg fyrir að hin raunverulegu verðmæti heilbrigðiskerfisins, heilbrigðisstarfsfólkið, tapist? Það er það sem við stöndum frammi fyrir og það er það sem allir heilbrigðisstarfsmenn sem ég hef talað við, m.a. sitjandi landlæknir, hafa bent á. Við erum mögulega að lenda í neikvæðum spíral þar sem við missum heilbrigðisstarfsfólkið okkar. (Forseti hringir.) Er hv. þingmaður sammála þessu?