144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:20]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir alveg sérlega skarpa ræðu sem sýnir hversu glögga sýn hún hefur á innviði fjárlagafrumvarpsins og fjárlaga ríkisins. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um að það er með ólíkindum að þessi ríkisstjórn skuli afsala sér svo mörgum tekjulindum í stöðu sem enn er ekki hægt að segja um annað en að sé kröpp að því er ríkissjóð varðar. Hv. þingmaður taldi upp auðlegðarskatt og veiðileyfagjald. Því má bæta við að hún afsalaði sér líka möguleikum á skattheimtu af ferðaþjónustunni. Við munum að hún spreðaði 5 milljörðum í skattalækkanir sem fóru til allra annarra en þeirra tekjulægstu og við vitum hvernig hún hefur farið á þessu ári með ýmsa einskiptisávinninga. Ég hygg að ef allt væri saman reiknað, og sérstaklega þessir stóru ávinningar sem koma einungis einu sinni, eins og við höfum verið að ræða á þessum vetri, megi slá á það að á kjörtímabilinu slagi þetta hátt upp í 200 milljarða. Það mundi muna um minna ef það hefði verið veitt til þess að greiða niður skuldir ríkisins. Ég tek bara undir þetta.

Það sem gladdi mig auðvitað sérstaklega var að hv. þingmaður nefndi Árneshrepp. Ég held að ég hafi aldrei, öll árin sem ég hef verið á þingi, komið í fjárlagaumræðu án þess að nefna Árneshrepp. Þar er svo margt sem situr á hakanum og það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður sagði, það var einmitt í tíð síðustu ríkisstjórnar sem veitt var meira fjármagn en hefur nokkru sinni verið gert til vega- og samgönguframkvæmda á Vestfjörðum kannski frá því að göngin voru byggð á sínum tíma.

Hv. þingmaður ræddi hér um opinber störf og var andsnúin þeim leiðum sem ríkisstjórnin virðist kjósa að fara til að fjölga þeim á landsbyggðinni. Hvernig vill hún fjölga þeim á landsbyggðinni og hvernig mundi hún nýta fjárlagafrumvarpið til þess?