144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:24]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður gerði í prýðilegri ræðu sinni nokkra grein fyrir ræðu sem ég flutti í morgun og fjallaði um hælisleitendur og þann sára skort á fjármagni til málaflokksins sem ég taldi að kynni að leiða til upplausnar innan hans. Ég er þeirrar skoðunar að allir eigi það sem þeir eiga og hv. fjárlaganefnd á auðvitað við ramman reip að draga, mörg gögn berast á hennar borð og hún þarf mikið að lesa. Það hafa líka verið sérstakar aðstæður uppi í innanríkisráðuneytinu að undanförnu.

Ég tel þess vegna að það hafi ekki verið af neinum sérstökum illum hug gagnvart málaflokknum sem hann hefur fallið á milli stafs og bryggju hjá fjárlaganefnd, svo ég leyfi mér að vitna til frægs orðtækis úr þessum stól. Ég held miklu frekar að hérna hafi verið um einhvers konar glöp að ræða, mistök eða misskilning. Ég held nefnilega að það sem vaki jafnan fyrir fjárlaganefnd hverju sinni sé að koma málum þannig fyrir borð að ríkissjóður fari sem best út. Ef maður skoðar þær hugmyndir sem hv. þingmaður vísaði til felast þær í því að lagðar yrðu til 50 millj. kr. til tveggja verkefna til að halda áfram tilteknu starfi sem miðar að því að vinda ofan af kúfi sem hefur myndast varðandi afgreiðslu hælisleitenda.

Þegar maður skoðar hvað það kostar ef þetta verður ekki gert kemur í ljós að það mundi auka kostnað ríkissjóðs um 100–300 millj. kr. Með öðrum orðum, það að leggja til þessa málaflokks 50 millj. kr. mundi spara stórkostlega fyrir ríkissjóð. Þetta var í reynd inntak ræðu minnar í morgun (Forseti hringir.) og þetta vildi ég bara undirstrika um leið og ég þakka hv. þingmanni fyrir prýðilega ræðu og fagna því sérstaklega að hv. formaður fjárlaganefndar gengur í salinn. (Gripið fram í.)