144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:13]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú hefur það verið svo að náðst hefur sátt í nágrannalöndum okkar um rekstur almannaútvarps, óháð því hvort þar hafi verið hægri stjórnir eða vinstri stjórnir. Það sem mér hefur þótt miður í umræðum um Ríkisútvarpið er að fólk virðist blanda saman skoðunum sínum á fréttaflutningi, telja jafnvel að skoðanir sem birtast í þáttum í Ríkisútvarpinu eigi að hafa einhver áhrif á það hvernig ríkið útdeilir fjármunum til Ríkisútvarpsins. Þetta finnst mér sýna hversu fjarskalega stutt á veg við erum komin í allri umræðu um fjölmiðla. Ég get haft mínar skoðanir á ýmsu hjá Ríkisútvarpinu, dagskrárgerð, skoðunum fréttamanna, viðmælanda og annað, það tel ég ekki að eigi endilega að vera til umræðu þegar við ræðum rekstrargrundvöll Ríkisútvarpsins.

Ef við skoðum Evrópu alla hafa nánast allar þjóðir náð sátt um að reka almannaútvörp sem (Forseti hringir.) ákveðið akkeri í fjölmiðlalandslagi viðkomandi lands.