144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[14:05]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þingmaður hafi misskilið mig. Ég var ekki að leggja til að við sætum hér og biðum eftir því að eitthvað gerðist, síður en svo. Ég hef hins vegar þá pólitísku skoðun að við komumst hraðast áfram þegar við höldum ró okkar en vinnum jöfnum höndum að velferð íslensku þjóðarinnar. Ég vona að það verði ekki misskilið þannig að við eigum að setjast niður og vona það besta. Auðvitað eigum við að vona það besta en við verðum að búast við því versta og gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að hagur allra á Íslandi batni og við höldum jöfnuði í samfélagi okkar. Ég mun fylgjast mjög vel með þeim sem vara við því ef hann er að aukast og ég mun beita mér fyrir því að svo verði ekki.