144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:49]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Þetta eru mjög góðar spurningar. Ég varð einmitt fyrir miklum vonbrigðum þegar ákveðið var að lækka þetta niður í 3%, út af því að ég veit að þegar maður er búinn að vera fátækur lengi og hafa það erfitt þá getur maður ekki veitt sér nauðsynjar. Fólk sá kannski fram á að geta farið til tannlæknis eða slíkt.

Ég er alveg sammála þingmanninum þegar kemur að því að skoða hverjir eigi að vera hin breiðu bök. Mér finnst alvarlegt, eins og kom fram í ræðu minni, að við búum í samfélagi þar sem við teljum okkur trú um að nám og heilbrigðisþjónusta eigi að vera fólki að kostnaðarlausu; maður er að borga skattana til að það sé hægt. Því hefur verið snúið á hvolf og enn frekar staðfest að við eigum ekki að fá að búa í þannig samfélagi. Mér finnst það svolítið sorglegt. Það er ekki það samfélag sem ég vil búa í.

Mér finnst líka skrýtið að ákveðið hafi verið að hverfa frá sykurskattinum. Undanfarið hefur verið rætt um sykur sem eiturefni. Ég hef vitað það lengi að sykur er hálfgert eitur og mjög ávanabindandi, nánast eins og eiturlyf, og sér í lagi hvítur sykur, en ef maður sagði það þá var maður álitinn hálfskrýtinn. En mér þætti þá, fyrst afnema á þau extra-gjöld sem voru á sykri, ekkert vitlaust að taka matarskatt hreinlega alfarið af ávöxtum og grænmeti.