144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:58]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvar sitt þar sem hún gaf mér tækifæri til að ræða um málefni Ríkisútvarpsins. Ég vildi helga umræðuna þremur til fjórum málaflokkum sem eru mér mjög kærir og hefði viljað komast í fleiri, eins og t.d. Ríkisútvarpið. Ég tek undir það sem hv. þingmaður talaði um og mér þótti mjög merkileg sú ályktun sem þverpólitísk nefnd stjórnar Ríkisútvarpsins setti fram. Ég vil trúa því að sjálfstæðismenn og framsóknarmenn, sem ráða nú ríkjum í dag og stjórna því hvað veitt er til Ríkisútvarpsins og hvað ekki, hlusti á það sem þar kemur fram.

Eins og hv. þingmaður nefndi eru þar sett fram fimm atriði; safnamál, barnaefni, breytt stefna í hinum dreifðu byggðum o.s.frv. Hv. þingmaður spurði mig sérstaklega út í breytta stefnu gagnvart hinum dreifðu byggðum. Ég er svo sannarlega sammála því sem þar kemur fram, að starfsemi Ríkisútvarpsins í hinum dreifðu byggðum þarf að efla aftur. Svæðisstöðvarnar voru með sína fréttamenn sem færðu okkur mikið af góðum fréttum af landsbyggðinni, en þær hafa breyst dálítið mikið, því miður. Þær verður að efla aftur.

Ég tilheyrði síðustu ríkisstjórn og stjórnarmeirihluta á síðasta kjörtímabili og það var erfitt að vera þar, að þurfa að skera niður og hreinsa til eftir þá sem voru þar á undan, að koma landinu aftur á réttan kjöl. (Gripið fram í.) Ég veit að hv. þm. Vigdís Hauksdóttir var ekki á þingi þá en Framsóknarflokkurinn var þar. (Gripið fram í.) Það var ljóst og því hefur ekki verið neitað að við þurftum að skera niður og menn gerðu það stundum með óbragð í munni, en það var alltaf vitað mál að það þyrfti að skila því til baka þegar hagur okkar færi að vænkast. Nú er okkur sagt og við vitum það að hagurinn er að batna, en þá koma bara fram aðrar áherslur, eins og til dæmis í málefnum Ríkisútvarpsins. Mér finnst Ríkisútvarpið hálfpartinn vera lagt í einelti af einum eða tveimur mönnum sem tilheyra ákveðnum stjórnmálaflokki.