144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:26]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Annað sem fyrrverandi landlæknir, Ólafur Ólafsson, sagði þegar ég spurði hann: Hvað er það sem er mikilvægast að gera akkúrat núna? Hvað er brýnt? var að það væri að finna lausn og gera samninga við lækna, það væri það brýnasta núna. Svo þyrfti að sjálfsögðu að setja aukið fé í að byggja upp kerfið. En það brýnasta núna væri að ná sátt við lækna þannig að við verðum ekki fyrir þessum mikla atgervisflótta sem þýðir að vaktaálagið sem er mikið fyrir lendir á þeim læknum sem þó sitja eftir sem eru þá líklegri til að fara og svo koll af kolli.

Eftir kosningaloforð stjórnarflokkanna og menn töluðu alveg skýrt fyrir kosningar um það að heilbrigðisstarfsfólkið væri hin raunverulegu verðmæti heilbrigðiskerfisins, verðmæti heilbrigðisþjónustunnar fælust fyrst og fremst í mannauðnum, bæta þyrfti starfsumhverfi og kjör heilbrigðisstétta til að draga úr brotthvarfi. Þetta voru kosningaloforðin þeirra. Eftir slík kosningaloforð og horfandi fram á alvarleika þeirrar stöðu sem við stöndum frammi fyrir og skýran vilja kjósenda langar mig að spyrja þingmanninn (Forseti hringir.) hvort við þingmenn sem höfum fjárveitingavaldið eigum ekki að halda áfram að ræða um það og hleypa ekki fjárlögum í gegn fyrir jól og slíta þingi eða fara í jólafrí okkar fyrr en búið er að ná samningum við lækna.