144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:37]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég held að við getum alveg litið til Þýskalands í þessum efnum og þetta hefur verið gert í öðrum löndum. Það væri kannski einmitt gott fyrir okkur að læra af því, vera ekkert að finna upp hjólið.

Hv. þingmaður talar um iðrunina, já auðvitað er það lykilatriði að sýna iðrun til að vera fyrirgefið. Maður veltir því oft fyrir sér að þetta er svona eitt af því sem manni finnst svo sorglegt, svo að ég taki það orð enn einu sinni fyrir, að fólk skuli gera þetta, að fólk skuli leggja sig fram við að svíkja undan skatti. Ég held að töluvert mikið sé um það á Íslandi. Við þurfum einhvern veginn að afmá það út úr samfélaginu og fá alla til að borga lögmæta skatta og ekki síst þá sem eiga mikið af peningum. Það virðist einhvern veginn vera þannig að eftir því sem fólk á meira af peningum vill það bara meira. Fólk er kannski tilbúið að gera ýmislegt til að svíkja undan skatti og taka þátt í samfélaginu.