144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[22:05]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson benti einmitt á að læknar fóru út í nám, og hafa gert það alla tíð, þeir þurftu að fara í sérfræðinám erlendis og komu svo heim. Þetta er ekki raunin í dag, eða það er mun minna um það að læknar komi heim. Og þeir sem koma heim staldra stutt við. Þetta er það sem ég heyrði hjá fyrrverandi landlækni til 25 ára, Ólafi Ólafssyni, í gær þegar ég spjallaði við hann, eða var það í morgun? Nei, það var fyrr í dag, þetta hefur verið svo langur dagur. Þetta er staðan sem við stöndum frammi fyrir.

Starfandi landlæknir sem ég talaði við fyrr í vikunni sagði það sama og fyrrverandi landlæknir, það eru þessi þrjú atriði: Launin, aðstaðan eða tækjabúnaðurinn, að hafa þau tæki og tól sem læknar vilja til þess að geta sinnt sjúklingnum sínum almennilega, og svo er það vinnuálagið. Nú stöndum við frammi fyrir því að gjörgæslulæknar ætla að fara að (Forseti hringir.) segja upp ef samningar nást ekki (Forseti hringir.) fyrir áramót og þá getum við lent í þessum spíral.