144. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:29]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir prýðisgóða ræðu.

Mig langar að eiga smá orðastað við hann um kjör lífeyrisþega, þá aðallega örorkulífeyrisþega. Rannsóknir hafa sýnt að þetta er þjóðfélagshópur sem er líklegri en margir aðrir hópar til að búa við fátækt eða á mörkum fátæktar. Íslenskar rannsóknir hafa jafnframt sýnt að sá hópur öryrkja sem er hvað verst staddur fjárhagslega er fjölskyldur með börn á framfæri og þá sérstaklega einstæðar mæður. Má kannski segja að útreikningar Benedikts Jóhannessonar kenndan við Talnakönnun komi þar með enn meiri þekkingu og vitneskju inn í það til að sýna okkur hvað sá hópur er illa staddur.

Mig langar að ræða þetta í tengslum við umræðu um hækkun á matarskatti úr 7% í 11%, því eins og þingmaðurinn benti á eru kannski lækkanir á sköttum ekki líklegar til þess að skila sér út í verðlag. Er þingmaðurinn sammála mér um að þetta samspil, þ.e. slæm kjör öryrkja og þá barnafjölskyldna og hækkun matarskatts, sé einstaklega hættuleg blanda og mjög varúðarverð leið eða staða sem við erum á leiðinni út í?