144. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:25]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Bjarkeyju Gunnarsdóttur fyrir prýðisræðu. Það er gjarnan talað um að til að átta sig á því hvernig hjartað slær í rekstri þá eigi að líta á fjármálin. Ég greindi það vel á ræðu hv. þingmanns að af vinnu hennar í fjárlaganefnd er hún komin með mjög yfirgripsmikla þekkingu á málaflokknum.

Ég vil gjarnan horfa á heildarstefnumörkunina sem birtist í fjármálastefnu ríkisstjórnar hverju sinni. Það er augljóst að náðst hefur jafnvægi í ríkisfjármálum, um það er ekki deilt. Hv. þingmaður kom vel inn á það að allir í þjóðfélaginu hefðu þurft að taka vel á og hér söfnuðust skuldir. Fyrsta skrefið í átt að jafnvægi er auðvitað að byrja að greiða niður skuldir. Mig langar að heyra skoðanir hv. þingmanns á því hvort það sé ekki grundvallaratriði (Forseti hringir.) eins og staðan er í dag að byrja á því (Forseti hringir.) að greiða niður skuldir ríkissjóðs.