144. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:04]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni fyrir ræðu hans hér á undan. Það kemur mér ekki á óvart að hann hafi notað lengstan tíma af umfjöllun sinni til að fara yfir heilbrigðismálin og stöðu þeirra. Sá alvarlegi veruleiki sem blasir við okkur núna þegar Alþingi er að ræða fjárlög og afgreiðslu þeirra fyrir komandi ár er að við erum þar með öll mál í uppnámi og að óbreyttu stefnir í algera neyð, ef hún er ekki þegar farin að sýna sig verulega. Það er alveg hægt að fullyrða það að hluti landsmanna er farinn að finna fyrir áhrifum af því verkfalli hefur verið í gangi um nokkurn tíma og mun halda áfram að óbreyttu, því miður verður að segjast, verði ekki gripið inn í á afgerandi hátt.

Ég hef tekið eftir því hér í þingsal á undanförnum dögum að það virðist vera sem stjórnarþingmenn víki sér undan því að ræða þetta mál og séu ósáttir við að verið sé að taka þessa umræðu hingað inn í þingsal, hún eigi ekki heima hér. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort honum finnist, með vísan til þess sem kom fram í ræðu hans áðan, að ráðamenn taki þessu máli af nokkurs konar léttúð. Þótt ég vilji alls ekki orða það þannig í mínum huga eru margir sem spyrja sig að því úti í samfélaginu, og þess vegna nefni ég það hér, hvort menn geri sér ekki grein fyrir því hvað sé í húfi. Hvernig vill þingmaðurinn að tekið sé á þessu máli og hvert finnst honum að hlutverk og staða þingsins eigi að vera í þeim efnum?