144. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:48]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Nú er þriðja lota í læknaverkfallinu og frá miðnætti í gær lögðu kvenlæknar og barnalæknar niður störf í tvo sólarhringa. Til stendur að verkfall lækna muni halda áfram eftir áramót og fram til páska ef ekki nást samningar. Það er alveg ljóst hver vilji meiri hluta landsmanna er. Landsmenn vilja forgangsraða skattfé sínu í heilbrigðiskerfið. Það er alveg ljóst, sama um hvaða flokk er að ræða hvað varðar forgangsröðun á skattfé, að langflestir vilja forgangsraða því í þágu heilbrigðiskerfisins og er flokkur hv. þingmanns þar mjög ofarlega, það eru allir flokkar í kringum níutíu og eitthvað prósent, Samfylkingin er með hæsta hlutfallið hvað það varðar, held ég, svo kemur flokkur hv. þingmanns. Loforð og orðræða stjórnarflokkanna er skýr og stjórnarsáttmálinn segir að við eigum að færa okkur í áttina að því að vera með heilbrigðiskerfi sem er samkeppnishæft við nágrannaríkin. Nú er verið að bæta örlítið í miðað við það sem lagt var upp með í fjárlögunum en það er klárlega ekki nóg, það eru ekki nema 60% af því sem Landspítalinn kallaði eftir og töluvert minna en það sem landsbyggðin kallaði eftir. Í fyrsta skipti í sögu landsins eru læknar í verkfalli.

Mig langar að spyrja hv. þingmann í ljósi alvarleika stöðunnar, í ljósi þess að við fáum ekki sérfræðinga aftur til Íslands sem neinu nemur og að við erum að missa þá út sem við höfum, í ljósi þeirra loforða sem fólki voru gefin fyrir kosningar, í ljósi afstöðu landsmanna allra og kjósenda hv. þingmanns: Hvað sér hv. þingmaður fyrir sér að við þingmenn getum gert til að leggja okkar lóð á vogarskálarnar svo samningar náist og svo meira fé verði veitt í heilbrigðiskerfið á fjárlögum?