144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[14:47]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ísland er gríðarlega ríkt af auðlindum, ekki síst mannauði. Við Íslendingar búum við það að eiga mikið af auðlindum í fiski og orku og öðru en samt gengur okkur ofsalega illa að reka þetta samfélag. Ég hef lengi velt því fyrir mér hvernig í ósköpunum stendur á því að við getum ekki sameinast, því að leiðir til að reka hérna samfélag eru til. Af hverju gerum við það ekki þannig að allir njóti góðs af því?

Hv. þingmaður nefndi í ræðunni að það hefði komið fram hjá hæstv. ráðherrum, eins og t.d. hæstv. fjármálaráðherra Bjarna Benediktssyni, að við þurfum að stækka kökuna á Íslandi. Mér finnst það ekkert endilega lykilatriði að stækka kökuna á Íslandi heldur er aðalatriðið að skipta kökunni rétt. Það er það sem mér finnst algjörlega vanta á Íslandi, að skipta þjóðarkökunni rétt á milli þeirra sem búa hérna og ekki síst þeirra sem starfa við til dæmis sjávarútveg, sem er lykilatvinnuvegur þjóðarinnar, að hann fái meiri hlut í þeirri köku sem verið er að búa til þar.