144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:22]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu þar sem hún fór yfir öll helstu málin og atriðin sem minni hlutinn á þingi lagði fram. Hv. þingmaður kom víða við í ræðu sinni, m.a. á okkar svæði, Suðurnesjunum, sem stendur nú höllum fæti að mörgu leyti, bæði hvað varðar menntun og atvinnumál, þó að ýmislegt hafi nú samt áorkast í þeim efnum á síðustu árum.

Það sem mig langar til að spyrja um er aðeins meira tengt menntamálunum. Ef ég les aðeins úr stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, sem er afskaplega fallegt og gott plagg, þá segir þar m.a., með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin leggur ríka áherslu á að efla menntakerfið með hagsmuni nemenda og þjóðarinnar allrar að leiðarljósi. Fjölbreytileiki í skólastarfi er lykill að kraftmiklu og skapandi samfélagi. Áhersla verður lögð á samráð við hagsmunaaðila þegar ákvarðanir eru teknar á vettvangi ríkisins um skipulag náms og kennslu. Auka þarf áherslu á nám í iðn-, verk-, tækni-, hönnunar- og listgreinum og efla tengsl þessara námsgreina við atvinnulífið. Komið verði á fót samstarfsvettvangi menntamálayfirvalda, kennara og hagsmunaaðila í atvinnulífi um framtíðarsýn og mótun menntastefnu í þessum greinum.“

Eins og ég sagði eru þetta afskaplega falleg orð og vel sögð og til þess fallin að auka manni bjartsýni, vegna þess að það er nú eitt sem maður hefur nú lært og lesið í gengum tíðina að ef kreppur verða í þjóðfélögum eiga menn að leggja meiri peninga í menntun, efla nýsköpun og þróun og styrkja skóla.

Ríkisstjórnin gerir þó allt þveröfugt miðað við það sem stendur þarna. Þess vegna langar mig að spyrja hv. þm. Oddnýju Harðardóttur: Hvernig sér hún fyrir sér að menntamál og skólamálin í samfélaginu muni þróast á næstu árum ef ekki verður snúið algjörlega af þessari braut?