144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:02]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið. Ég held að hlutverk okkar sem erum á þingi sé að hugsa fyrst og fremst um þá sem minna mega sín og gæta hagsmuna þeirra. Fólk sem hefur nægar tekjur og er vel statt í þjóðfélaginu þarf í sjálfu sér ekkert á minni hjálp að halda. Það er á þeim stað að því vegnar ágætlega.

Ég tek undir það varðandi skuldaniðurfellinguna að leigjendur séu bara settir út í kuldann. Jú, þeir geta vissulega nýtt séreignarsparnaðinn sinn — til þess að gera hvað? Þeir fara í séreignarúrræðið til að kaupa sér fasteign í staðinn fyrir að við búum til kerfi hérna þannig að gott sé að vera leigjandi á leigumarkaði. Við erum í rauninni að segja við leigjendur: Þið getið sparað pening svo að þið getið keypt ykkur fasteign af því að á Íslandi verða allir að geta keypt sér fasteign. Hvað ætlum við síðan að gera í næstu gengisfellingu? Ætlum við þá að leiðrétta aftur öll verðtryggðu lánin sem voru tekin því að allir eiga að kaupa sér fasteign? Ég held að við ættum einmitt að fara út úr þessu kerfi. Leigjendur eru settir út í kuldann og líka þeir sem eru í búseturéttarúrræðunum sem hafa jafnvel tekið lán upp á 2–3 milljónir og eru í öruggu húsnæði, eiga sinn litla hlut og borgar leigu en ekkert viðhald — það er engin leiðrétting fyrir þá af því að þetta er ekki fasteignalán. Hafi fólk tekið lán til að komast í búsetuúrræði þá er ekkert gert fyrir það.

Mér finnst þessi aðgerð svo víðáttuvitlaus að ég trúi því bara ekki að þjóðin skuli vera sátt við hana. Þá segi ég líka: Ef þetta er það sem þjóðin vill, að setja rúmlega 80 milljarða á fjórum árum í þetta úrræði, þá getur hún eiginlega ekki kvartað yfir því að ekki séu til peningar í samgöngur, í menntamál, í heilbrigðismál eða fjarskipti úti á landi, þá erum við að setja 80 (Forseti hringir.) milljarða í þetta.