144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:14]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. 10. þm. Norðaust. fyrir viðleitnina gagnvart opnum nefndarfundum vegna þess að það er eitthvað sem mér finnst stórlega vanta hér og ég fullyrði hiklaust að mundi leiða til mun vandaðri vinnubragða þótt það sé ekkert fullkomlega gallalaust fyrirkomulag frekar en nokkurt annað. Það er ekki eins og núverandi fyrirkomulag sé gallalaust.

Ég þarf að byrja á því að kalla breytingartillögu mína til baka sem fjallar um 8 millj. kr. framlag til Fangelsismálastofnunar til þess að reyna að tryggja að námsráðgjafi verði til starfa í fullu starfi við menntun fanga. Það er málaflokkur sem ég tek mjög alvarlega og mér finnst mjög leiðinlegt þegar eitthvað bjátar á í fangamálum. Það er málaflokkur sem er auðvelt að hunsa og verður gjarnan út undan vegna þess að viðhorf almennings, eða kannski ekkert alls almennings, er allt of oft það að þegar menn hafa brotið eitthvað af sér eigi þeir ekki skilið ýmsa hluti sem eru þó öllum öðrum líka til hagsbóta, þar á meðal er menntun fanga og atvinna. Þetta eru betrunarúrræði. Þetta er fyrir okkur öll, þetta er ekki bara fyrir fanga þótt það sé auðvitað frábært að geta gefið fólki tækifæri til þess að rétta úr kútnum í lífi sínu. Ég kalla til baka breytingartillöguna, kasta henni til 3. umr., eða hvað sem má kalla það, en vænti þess fastlega að hún verði rædd í hv. fjárlaganefnd og sömuleiðis hv. allsherjar- og menntamálanefnd og verði til umfjöllunar við 3. umr. fjárlaga. Þetta er ekki há fjárhæð, 8 millj. kr., þetta er mjög lítið í samhengi fjárlaga og ég heyri ekki betur á þingmönnum meiri hlutans en að um þetta ríki fullkomin sátt enda skilningur á málinu ríkur, sem er gott.

Mig langar að nota tækifærið til að ræða aðeins um náttúrupassa sem er kominn upp núna. Náttúrupassi virtist kannski ágæt hugmynd í upphafi en þegar maður lítur á það að hann er í eðli sínu skerðing á ferðafrelsi hljótum við að vilja endurskoða þá hugmynd og skoða hana til enda, vegna þess að með honum verður ákveðin grundvallarbreyting sem mér hugnast alls ekki. Mér finnst vont að búa í samfélagi þar sem maður getur almennt gefið sér að mega hlutina ekki nema maður hafi til þess sérstakt leyfi. Ég er nú svo uppreisnargjarn og brjálaður anarkisti að ég vil helst að hlutirnir séu leyfilegir nema þeir séu sérstaklega bannaðir en ekki öfugt, nema auðvitað fyrir yfirvöld. Hjá yfirvöldum á það að vera öfugt því þau eiga ekki að mega neitt nema það sem er sérstaklega leyft. Þannig er það sem betur fer, að öllu jöfnu. En mér hugnast ekki þessi breyting og tel eðlilegt að ríkissjóður standi einfaldlega að því að kosta það, fjármagna það, að náttúruperlur Íslands eyðist ekki eða eyðileggist með aukningu ferðamanna. Vissulega þarf að gera ýmislegt í þeim efnum. En ég tel eðlilegt að ríkissjóður standi að þeim kostnaði og skattgreiðendur borgi það einfaldlega, sérstaklega núna þegar við erum komin upp yfir núllið í ríkissjóði að því er virðist.

Ræða hv. 10. þm. Norðaust. vakti mig enn og aftur til umhugsunar um vinnubrögðin á hinu háa Alþingi. Ég var að hugsa með mér fyrir nokkrum dögum að mér fyndist stundum eins og að maður þroskaðist í öfuga átt við það að vera á Alþingi. Ég var rétt farinn að fullorðnast, rétt farinn að hafa einhverjar vitrænar skoðanir, þá lenti ég á Alþingi og þetta fór allt í hnút. Ég fór að þroskast í kolöfuga átt. Ég grínast auðvitað, en stundum finnst mér þetta vegna þess að hérna eru reglur eða kannski meira þannig andrúmsloft og venjur sem minna mann óhjákvæmilega á grunnskólann. Það er ekki bara blessuð bjallan sem hringir þegar maður á að mæta í atkvæðagreiðslu, heldur ýmislegt annað. Ef maður mætir ekki í þetta eða hitt partíið þá verður einhver fúll, ef maður er ekki með á þessu eða hinu málinu er það erft við mann seinna og alls konar svona félagsleg einkenni grunnskóla sem ég kannast ekki við í því fullorðinslífi sem ég hef lifað í þremur löndum, þremur heimsálfum, sælla minninga.

Ég velti því oft fyrir mér hvers vegna hér sé ekki umræða um fjárlög, eða öllu heldur, ég tek þetta til baka, virðulegur forseti, hvers vegna hér sé ekki efnismeira samtal milli meiri hluta og minni hluta. Þá vil ég tala sérstaklega um opna nefndarfundi sem ég ræddi við hv. 10. þm. Norðaust. áðan. Á nefndarfundum er almennt svipað hlutfall þingmanna eftir flokkum, þ.e. meiri hluti á þingi er með meiri hluta í nefnd, minni hluti á þingi er með minni hluta í nefnd. Munurinn á þingfundum og nefndarfundum er hins vegar sá að allir þurfa að sitja nefndarfundina. Við þurfum ekki að sitja í þingsal. Það þýðir að á nefndarfundum, væru þeir opnir, jafnvel ef það leiddi af sér það sem tengist hverjum þeim slæmu hugmyndum sem menn hafa um þingræður, væri það alla vega þannig að menn væru á ákveðinn hátt neyddir til þess að taka þátt. Ég held að það mundi hjálpa gríðarlega mikið við þingstörfin og vissulega fjárlagagerð. Þess vegna tel ég, mig grunar það, að opnir nefndarfundir eða einhver þannig útfærsla mundi hjálpa gríðarlega mikið við það að skila fjárlagafrumvarpi sem væri aðeins meiri sátt um. Það yrði auðvitað aldrei fullkomin sátt, það liggur í eðli þeirrar staðreyndar að hér eru margir flokkar og ýmis sjónarmið sem takast á. Það er alveg eðlilegt. Það er ekkert í sjálfu sér við því að gera annað en að reyna að hafa vinnubrögðin þannig að það skili eins mikilli sátt og mögulegt er.

Þetta gerist að afskaplega takmörkuðu leyti í þessari pontu í þingsal. Hér er mikið rætt um fjárlög, vissulega, oft sömu punktarnir aftur og aftur sem er líka eðlilegt upp að vissu marki vegna þess að margir þingmenn vilja auðvitað hafa það skýrt að þeir aðhyllist einhverja skoðun sem er kannski mjög vinsæl, og kannski er hún rétt, stundum er vinsæl skoðun rétt, það kemur fyrir. En það á sér ekki stað þetta samtal nema af og til.

Það verður reyndar að hrósa hv. 4. þm. Reykv. s. sérstaklega fyrir mikinn dugnað við að taka þátt í umræðum, en auðvitað á ég við hinn háttvirta þingmann, hinn eina sanna Pétur H. Blöndal. Það væri óskandi að maður sæi meira af umræðu þar sem er samtal milli minni hluta og meiri hluta. Ég tel að það samtal mundi eiga sér stað í miklu meira mæli á opnum nefndarfundum þar sem eru ekki allir þingmenn, bara þeir þingmenn sem tilheyra tilheyrandi nefnd, og að þeir gætu talað aðeins frjálslegar. Það er ekki mín reynsla af nefndarfundum að þar sé fólk almennt háð þögninni eða háð lengdinni. Auðvitað vill maður geta viðrað skoðanir sínar. Mér finnst að þingmenn eigi að hafa kjark til þess að viðra sínar skoðanir. Ég sé ekkert athugunarvert við það. Ég get stungið upp á einhverjum hugmyndum sem reynast kjánalegar, ég hef margoft gert það og mun halda áfram að gera það til dauðadags, hér sem og annars staðar. Mér finnst ekkert að því að þingmenn axli þá ábyrgð að geta talað án þess að þurfa endilega að skammast sín fyrir það að koma fram með hugmyndir sem síðan eftir frekari umræðu reynast ekkert endilega vera rétta lausnin. Mér finnst það vera hluti af — ég er ekki viss um hvernig ég á að koma þessu frá mér en ég er að leita að öðru orði en „hroka“ til þess að lýsa því fyrirbæri þegar stjórnmálamenn gera oft þá kröfu á sjálfa sig að þeir viðri ekki neina skoðun nema þá sem þeir hafa skoðað algjörlega til enda, hugsað algjörlega til enda þannig að enginn geti hugsanlega fundið eitthvað til að gagnrýna þá fyrir nema hugmyndafræðilegan ágreining. Mér finnst eðlilegt að fólk hafi það í huga að þegar kemur að hugmyndum eru tíu hugmyndir af hundrað stundum betri en níu af tíu. Það er auðvitað háð því að menn hafi einhverja leið til þess að ákvarða hvað sé góð hugmynd og hvað sé slæm hugmynd. Mér finnst það samtal ekki eiga sér stað í þingsal almennt þegar kemur að stórum málum eins og fjárlögum.

Ég upplifði þetta líka í hagstofumálinu á sumarþinginu 2013, mjög sterkt reyndar. Þó var meiri umræða þá enda snerist málið kannski meira um ákveðinn hugmyndafræðilegan ágreining milli einstakra hv. þingmanna. En þar sem fjárlög eru stærsta og mikilvægasta mál hvers ár finnst mér mikilvægt að það eigi sér stað samtal og það eigi sér stað fyrir opnum tjöldum, að almenningur geti fylgst með því samtali.

Sömuleiðis vil ég minna þann hæstvirta hluta almennings sem er að horfa á að það er hægt að senda inn umsagnir um mál. Það eru margir sem vita þetta ekki, en það er hægt að senda inn umsagnir um hvaða þingmál sem er, öll þau þingmál þar sem þingskjöl fylgja. Ég hvet alla landsmenn til þess að íhuga þann kost, hafi þeir eitthvað gagnlegt um málið að segja.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði (Forseti hringir.) að jafnaði opnir.