144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:18]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi vinnumarkaðsmálin er svar mitt svolítið svipað og til annars hv. þingmanns áðan. Ég sé ekki fyrir mér hvaða bjargir fólk á að hafa aðrar en að fara til sveitarfélagsins, verða enn fátækara og líklega mun þetta auka skort, eitt er náttúrlega efnislegur skortur sem verður enn meiri hjá fólki sem er svo lengi búið að vera með lágar tekjur og mun lækka enn frekar, hins vegar það að fá ekki tækifæri til að koma sér inn á vinnumarkað með menntunarúrræðum eða öðrum vinnumarkaðsaðgerðum. Efnislegur skortur fólks verður meiri og það sem líklegt er að gerist er að fólk endi í langvarandi örorku.

Fólk sem er búið að vera í þessari stöðu í langan tíma er orðið mjög aðþrengt fjárhagslega. Ég þekki ekki greiningu á hópnum, hversu margir eiga húsnæði og njóta þá heimsmetsins, en ákveðið hlutfall þessa fólks er á leigumarkaði og býr því við vaxandi húsnæðiskostnað. Þetta er sá hópur sem eyðir hlutfallslega langstærstum hluta tekna sinna til kaupa á matvælum. Ég vil taka svo stórt til orða að með þessum aðgerðum sé verið að festa ákveðinn hóp í fátækt um ófyrirséðan tíma.