144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:57]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þegar hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon var fjármálaráðherra var eitt af mikilvægum verkefnum sem hann hrinti úr vör átak í skattrannsóknum. Í fjárlagafrumvarpinu er nú boðað að draga eigi allverulega úr því átaki þó að milli umræðna hafi verið bætt aðeins í.

Mig langar að heyra aðeins frá hv. þingmanni: Hver var ávinningur ríkisins af þessu átaki? Er ekki ástæða til að gera þetta að föstum lið í fjárlögum íslenska ríkisins? Síðan fór ég að hugsa eftir að fréttir komu af því að hæstv. núverandi fjármálaráðherra vill nálgast upplýsingar úr skattaskjólum sem hægt er að kaupa, sem er gleðilegt, en á sama tíma telur hann mikilvægt að koma með svokallað „amnesty“-ákvæði fyrir þá sem hafa verið að skjóta undan fjármunum. Gætum við leyft okkur að tala um að þessi ríkisstjórn sé að reisa skjaldborg um skattsvikara?