144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:22]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Nú er komið langt í 2. umr. um fjárlögin. Ég er ekki einn af þeim sem hafa kallað eftir því að ráðherrar væru við umræðu eftir að mál kemur inn í þing þar sem mér finnst eðlilegt að þeir fylgi málinu inn í þingið og síðan taki þingheimur við. Við erum hins vegar að ræða um fjárlögin, ég er búinn að flytja tvær ræður og flestir eru búnir með eða eru í annarri ræðu og við erum að tala gríðarlega stór mál sem eru í raunveruleikanum hreinar og klárar stefnubreytingar eins og í menntamálunum. Ráðherra boðar fyrst með hvítbók ákveðnar breytingar en það er ekkert verið að vinna í þeim í fjárlögunum. Það eru ekki settir neinir peningar í það. Það er verið að gera grundvallarbreytingar með því að loka skólum fyrir ákveðnum aldurshópum. Það er unnið að styttingu án þess að við höfum séð nokkurn skapaðan hlut um hvernig eigi að útfæra hana. Það er verið að þrengja að framhaldsdeildum víða á landinu þó að hluti af peningnum hafi komið til baka (Forseti hringir.) þannig að ég bið hæstv. forseta að hlutast til um það að þessir ráðherrar komi með okkur í síðustu umferðina og áður en hv. fjárlaganefnd fær verkefnið að ljúka þessu fyrir 3. umr.