144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:51]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Læknar eru í verkfalli í fyrsta skipti í sögunni. Það er staðan sem við stöndum frammi fyrir. Við eigum að sjálfsögðu að forgangsraða í þau verkefni sem eru brýn og áríðandi og örugg heilbrigðisþjónusta er númer eitt hjá landsmönnum öllum og samkvæmt samþykktri ályktun á landsfundi Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningar.

En hvað vantar upp á? Komið hefur verið til móts við Landspítalann með milljarði en á höfuðborgarsvæðinu, þar með á Landspítalanum, var einungis beðið um 2 milljarða. Það er komið til móts við það til hálfs. Landsbyggðina vantar enn 2 milljarða upp á að geta veitt nauðsynlega þjónustu, það er sú upphæð sem forsvarsmenn heilbrigðisstofnana segja að vanti. Það er ekki gert nóg og það er ekki tilviljun að læknaverkfall er núna. Það er ekki gert nóg, fjármunum er ekki forgangsraðað í brýn og áríðandi verkefni, örugga heilbrigðisþjónustu.

En eru þessir peningar til? Að sjálfsögðu eru þeir til, það var verið að skattleggja hagnaðinn hjá sjávarútvegsfyrirtækjunum sem fengu hvalreka í formi lægri krónu en skatturinn var lækkaður. (Forseti hringir.) Við hefðum algjörlega getað komist til móts við þetta hefðum við ekki lækkað skattinn. Svo eru menn ekki einu sinni tilbúnir að gera skattkerfið skilvirkara með því að hætta að undanskilja laxveiði frá virðisaukaskattinum.