144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:49]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Nú erum við að greiða atkvæði um að leggja sáralitla fjármuni í Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri. Fyrir okkur sem þekkjum til málsins og þekkjum hve menntamálaráðherra barðist hart fyrir því að sameina hann og Háskóla Íslands sem mætti mikilli mótstöðu, líka úr röðum hans eigin flokks, er sárgrætilegt að það sé engin framtíðarsýn fyrir skólann, hvorki faglega né fjárhagslega. Enn þá eru málefni skólans í uppnámi. Þó að þarna komi rúmar 17 milljónir er það dropi í hafið. Samfélagið og skólasamfélagið og íbúar og landsmenn allir eiga rétt á því að ríkisvaldið hafi þarna einhverja framtíðarsýn um framhald á uppbyggingu í þessum skóla sem hefur haft mikinn metnað og hefur skilað gífurlega góðu skólastarfi. Hann á að vera metinn sem slíkur, að hann fái að starfa í einhverju rekstraröryggi. Ég segi já.