144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:54]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er heldur einkennilegt að heyra þann málflutning að hér sé verið að skerða fjármagn til háskóla. Það er nóg að skoða þessar tölur, þær blasa við, það er verið að auka fjárframlögin. Mismikið, vissulega, vegna þess að þeir umframfjármunir sem koma við þessa umræðu skiptast með þeim hætti sem ég hef áður lýst, þar sem verið er að horfa til þess vanda, sem var mjög knýjandi og bráður og varð að finna lausn á, sem snýr að nemendum sem ekki er greitt fyrir samkvæmt samningum. Aftur á móti er verið að bæta hér við og ég vakti athygli varðandi Landbúnaðarháskóla Íslands á þeim fjármunum sem eiga nú að renna til rannsókna á þessu sviði sem klárlega mun nýtast þeim skóla.

Þegar hv. þm. Guðbjartur Hannesson segir að það hafi ekki verið neitt gagn að því að þurfa að bíða í eitt ár eftir hvítbók í menntamálum sem snýr að framhaldsskóla- og grunnskólastiginu, læsismálum og öðru slíku, leyfi ég mér að mótmæla því. Það mun sýna sig að það hafi skipt máli að það plagg kom út og sú stefnumótun sem þar liggur til grundvallar. En það þarf líka að vinna heilmikla vinnu í háskólastiginu.

Varðandi þá stefnu sem rekin var á síðasta kjörtímabili, bara að opna skólana þannig að þeir taki á móti sem flestum án þess að láta fjármagn fylgja þá leyfi ég mér að endurtaka það að sú forgangsröðun sem birtist hjá síðustu ríkisstjórn, þegar kom að því að velja (Forseti hringir.) sér verkefni til að fjármagna, hefði betur verið önnur og meiri fjármunir látnir renna til háskólanna en raun bar vitni. (VigH: Rétt.)