144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:01]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Hér er einmitt á ferðinni liður í því sem gert var á síðasta kjörtímabili, að mæta ástandinu í háskólasamfélaginu, meðal annars með því að leggja þeim til nýja fjármuni til að efla samstarf sitt, samstarfsnet háskólanna, samræming á innritun og margvísleg fleiri verkefni sem þeir leystu saman. Ég er mjög stoltur af því sem gert var í málefnum háskólanna á síðasta kjörtímabili. Háskólarnir opnuðu sínar dyr fyrir ungu fólki sem gat nýtt tímann til náms í staðinn fyrir að ganga um atvinnulaust.

Já, það er rétt að á erfiðustu árunum tveimur voru aðeins greidd 60% af fullum fjárveitingum með þessum viðbótarnemendum en háskólarnir tóku á með samfélaginu og niðurstaðan varð sú að þúsundir ungs fólks notuðu tímann til náms í staðinn fyrir að mæla göturnar. Það er lítil reisn yfir því hjá núverandi hæstv. sperrtum menntamálaráðherra að ráðast á þær aðgerðir því að þær voru vel heppnaðar. Þær voru liður í víðtækum vinnumarkaðs- og menntaaðgerðum í ágætu samstarfi við aðila vinnumarkaðarins, sveitarfélaganna og ríkisvaldsins og háskólanna sem tóku þetta verkefni að sér með glöðu geði til að hjálpa íslensku samfélagi og ungu íslensku fólki út úr erfiðleikunum.