144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:15]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við erum mikið búin að ræða þetta mál í þingsal og ekki að ósekju. Hér er ekki aðeins verið að meina fólki aðgang að framhaldsskólanum heldur er verið að vísa því inn í mun dýrari úrræði, það er verið að vísa því inn í úrræði jafnvel hjá fræðslumiðstöðvum eða símenntunarmiðstöðvum sem eru ekki endilega með faglærða kennara og það er ekki þeirra stefna að starfa samkvæmt framhaldsskólalögum. Mér finnst þetta því mjög ámælisvert. Mig langar líka í þessu samhengi að velta því upp, af því að hér hefur aðeins verið rætt um námsráðgjöf til fanga: Sér hæstv. ráðherra það fyrir sér að þeir fangar sem eru eldri en 25 ára, af því að það hefur verið talin ágætisleið til betrunar að mennta þá, fái til dæmis ekki að stunda áfram nám í framhaldsskólum landsins eða eiga þeir að fara í símenntunarúrræði? Það er ekki nóg með það að hér sé verið að kippa stoðum undan litlum framhaldsskólum í landinu heldur er leynt og ljóst verið að stefna að því að leggja þessa litlu skóla niður (Forseti hringir.) eða sameina þá undir einhvern stærri.