144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:20]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að ég er algerlega steinhissa að sjá meiri hlutann fella tillögu um 15 millj. kr. framlag til Landssambands æskulýðsfélaga sem hvergi er getið í fjárlagafrumvarpinu, hefur þó fengið stundum styrki af safnliðum menntamálaráðuneytis. En í ljósi þess að meiri hlutinn leggur hér fram tillögur um aukningu til meðal annars skátanna, UMFÍ og KFUM, sem ég raunar studdi áðan, finnst mér furðulegt að þarna ætli meiri hlutinn að ganga fram hjá Landssambandi æskulýðsfélaga, sem meðal annars er auðvitað Samband íslenskra framhaldsskólanema og fleiri samtök, risastór samtök þar sem ungt fólk vinnur að hagsmunamálum ungs fólks. Mér finnst þetta kaldar kveðjur frá meiri hlutanum til æskulýðsstarfs í landinu og til ungmennastarfs í landinu. Ég hlýt að gera þá kröfu að það verði skýrt milli 2. og 3. umr. hvort þessi samtök munu fá einhver fjárframlög af hálfu ráðuneytisins, því að annars er búið að kippa undan þeim grundvellinum. Meiri hlutinn (Forseti hringir.) bara blessar hér yfir það. Ég segi já við þessari tillögu.