144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:50]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Hér leggur minni hlutinn til til að bjarga málum að úr ríkissjóði á næsta ári fari beint 600 millj. kr. í viðbót inn í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Það er alveg ljóst að afgreiðslan af hálfu meiri hlutans að skilja sjóðinn eftir með einungis 145 milljónir í tekjur á næsta ári og ekki einu sinni með óskert gistináttagjald því að aðhaldsaðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa verið látnar bitna á tekjustofninum þannig að hann er nú skertur um 13 millj. kr., er óviðunandi. Þá brýnu þörf sem ríkisstjórnin sjálf og hæstv. ráðherra í nýjum pappírum metur upp á að minnsta kosti milljarð á ári virðist eiga að afgreiða með 145 milljónum. Það er algerlega óviðunandi afgreiðsla og lágmark að reyna að ná framlaginu upp í um það bil 750 milljónir sem það yrði með samþykkt þessarar breytingartillögu.

Hér liggur fyrir fótum manna frumvarp hæstv. ráðherra um reisupassann sem er algerlega morgunljóst að mun engum tekjum skila á næsta ári enda verður það væntanlega aldrei samþykkt. (Forseti hringir.) Ætlar hæstv. ráðherra að búa við það að hafa enga fjármuni í þetta á næsta ári í ljósi þess neyðarástands sem allir eru sammála um að þarna sé til staðar?