144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:06]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er nú mjög á svipuðum nótum. Ég tel að afgreiðslan á Vegagerðinni og vegamálunum sé algerlega hörmuleg og að það skuli nánast ekkert verða til ráðstöfunar til almennra nýframkvæmda á næsta ári þannig að sárafáum ef eiginlega nokkrum verkum verður hægt að hleypa af stað er eiginlega alveg nýtt í okkar sögu. Það fór þó aldrei svo að ekki væri hægt að halda uppi einhverju framkvæmdastigi jafnvel á erfiðustu árunum, en nú ber svo við að þegar maður hélt að betur væri farið að ganga verður þetta sennilega aumara en nokkru sinni fyrr í sögunni. Vegagerðin hefur nánast enga möguleika til að hleypa nýjum verkefnum af stað. Það eru ekki góðar fréttir fyrir vegakerfið, ekki fyrir verktaka og mannvirkjagerðina eða neinn sem í þessu landi býr. Ég held að við séum komin á mikið hættustig með því að svelta innviðina í samgöngumálum. Þetta geti ekki haldið svona áfram. Ég veit ekki hvort hæstv. ríkisstjórn finnur einhvers staðar matarholur á milli 2. og 3. umr. til þess að setja (Forseti hringir.) í eitthvað en ég mundi sterklega mæla með því að nýframkvæmdir í vegamálum fengju þá far í þeirri umferð.