144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:29]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Við spurningunni: Hvernig vilt þú að Alþingi forgangsraði fjármunum til eftirfarandi málaflokka í fjárlögum? í könnun sem Capacent Gallup gerði fyrir þingflokk Pírata nýlega kemur fram að heilbrigðismál, svo menntamál, almannatryggingar og velferðarmál, löggæsla, öryggismál og samgöngumál eru í fyrstu fimm sætunum. Þar á eftir koma húsnæðis-, skipulags- og hreinsunarmál, almenn opinber stjórnsýsla, menningarmál, sjávarútvegsmál, iðnaðarmál, landbúnaðarmál, eldsneytismál og loks í 13. sæti kirkjumál. Fyrir kristna þjóð að setja upp þessa forgangsröðun í fjárlögum segir svolítið um að í staðinn fyrir að taka nefskatt af almenningi, sem kemur sér verst fyrir þá sem minnst hafa, eigi að endurskoða þessa hluti og fara jafnvel þá kristnu leið sem var farin í upphafi að fólk leggi fram frjáls framlög ef það er í sókninni og vill styðja sitt trúfélag.