144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:47]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Hér er flutt tillaga og greidd atkvæði um 100 millj. kr. framlag til Sjúkrahússins á Akureyri sem minni hlutinn leggur til. Beiðni sjúkrahússins var um 120 millj. kr. og rökstuddi það mjög vel með ýmsum tölum sem það setti fram eins og að á fyrstu sjö mánuðum ársins hefur legudögum fjölgað um 9%, skurðaðgerðum um 11%, fæðingum um 8%, komum á slysa- og bráðamóttöku um 9% o.s.frv. Þetta er ákaflega vel fram settur rökstuðningur fyrir þessari beiðni um aukna fjárveitingu.

Ég ætla að spara mér ferð hérna upp fyrir næstu tillögu þar sem meiri hlutinn leggur einungis til 50 millj. kr. aukningu. Ég gagnrýni það og hvet til þess að tillaga okkar verði samþykkt.

Virðulegi forseti. Mér kemur í hug að það virðist vera eins og stjórnarmeirihlutinn sé í einhverri sérstakri herferð gegn ýmsum lykilstofnunum og stærstu stofnunum á Akureyri eins og Háskólanum á Akureyri og sjúkrahúsinu. Það kom fram hjá (Forseti hringir.) formanni umhverfis- og samgöngunefndar áðan að stjórnarmeirihlutinn hefði bara gleymt flughlaðinu á Akureyri (VigH: Það er rangt.) sem var búið að lofa í eitt og hálft ár eða tvö ár að lagfæra. (Gripið fram í.)