144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:58]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Undanfarin ár höfum við verið í bakkgírnum í heilbrigðismálum. Það er ekki nóg að fara bara upp í fyrsta eða annan gír. Það sem er verið að gera er að miðað við það sem forsvarsmenn Landspítalans kölluðu eftir, þeir kölluðu eftir 1.800 milljónum, fá þeir 1.000 milljónir samkvæmt næstu tillögu. Hérna eru 1.250 og svo 400, það eru 1.650 milljónir í heildina. Það nær ekki alveg upp í það sem kallað er eftir en það eru 85–90% af því sem kallað er eftir þegar ríkisstjórnin ætlar aftur á móti að fara 60% upp í það sem kallað er eftir. Og hvað? Til þess að veita nauðsynlega þjónustu. Ef þessir fjármunir eru ekki veittir kostar það meira. Það er enginn að spara hérna. Þetta þýðir að heilbrigðisþjónustan er ekki jafn örugg sem er forgangsverkefni. Þannig átti að forgangsraða skattfé samkvæmt landsfundi Sjálfstæðisflokksins síðast. Er ekkert hlustað á þennan landsfund?