144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:13]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Á Alþingi 16. maí sl., nánar tiltekið kl. 19.36, samþykkti Alþingi með 56 samhljóða atkvæðum ákaflega merkilega tillögu um byggingu og uppbyggingu Landspítalans þar sem sagt var, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að ljúka eins fljótt og verða má undirbúningi á endurnýjun og uppbyggingu Landspítala við Hringbraut í Reykjavík og hefja framkvæmdir þegar fjármögnun hefur verið tryggð.“

Þess vegna fagna ég mjög þeirri tillögu sem hér er komin fram um 500 millj. kr. sem settar eru í hönnun á meðferðarkjarnanum sem að mínu áliti er langbrýnasta byggingin sem við þurfum að fara í. Ég vil trúa því og vona að þessar 500 milljónir dugi til að vera á fullri ferð í hönnun á næsta ári þannig að framkvæmdir geti hafist sem allra fyrst, vegna þess að málið er brýnt. Ég hvet líka stjórnarmeirihlutann til að taka þátt í og samþykkja aðra tillögu sem ég er 1. flutningsmaður að og liggur inni hjá velferðarnefnd núna sem er að mynda þverpólitíska sátt allra aðila sem eiga sæti á Alþingi (Forseti hringir.) um að vinna þessu máli framgang, þ.e. vinna að fjármögnun. Þetta var þjóðarsátt sem var samþykkt hér 16. maí sl. og við þurfum að halda því vel áfram, virðulegi forseti.