144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:23]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Þessi liður fjallar um fjárframlög til tilraunaverkefnis um notendastýrða persónulega aðstoð. Ég vil minna þingheim á að fyrir nokkrum árum var þingsályktunartillaga samþykkt einróma um að notendastýrð persónuleg aðstoð skyldi vera einn meginvalkostur í þjónustu við fatlað fólk á Íslandi. Notendastýrð persónuleg aðstoð er besta leiðin til að tryggja fötluðu fólki sjálfstætt líferni. Það er leið fyrir fatlað fólk til að velja sér aðstoðarfólk og haga lífi sínu eftir eigin höfði. Hins vegar verð ég að gagnrýna að samkvæmt þingsályktunartillögunni átti núna að vera komið inn í þingið frumvarp til laga sem festir notendastýrða persónulega aðstoð varanlega í sessi sem þjónustuform við fatlað fólk. Það er ekki komið og mér finnst það gagnrýnisvert, en tilraunaverkefnið sem felur í sér að einir 50 einstaklingar hafa fengið svona þjónustu heldur þó áfram í tvö ár. Við styðjum það vegna þess að það hefði verið að mörgu leyti alveg týpískt ef þessi hópur fatlaðs fólks (Forseti hringir.) hefði bara gleymst.